
Velkomin í meðgöngujóga hjá Helenu. Meðgöngujóga hentar öllum konum á meðgöngu. Í meðgöngujóga leggjum við áherslu á öndun, jógaæfingar, hugleiðslu og slökun. Æfingarnar miðast við að auka liðleika og styrk á meðgöngu, auka vellíðan í líkamanum, létta á bakverkjum, verkjum í mjaðmagrind o.fl.
Þegar tilvonandi móðir lærir að fara inn á við og hlusta á líkamann, hreyfa sig eins og líkaminn þarf hverju sinni og vera í núinu þá lærir hún jafnframt að treysta líkamanum sem nýtist vel í fæðingunni. Við notum öndunaræfingar eins og haföndun sem hefur gagnast mörgum konum í fæðingu. Fjölmargar reynslusögur hafa sýnt fram á að meðgöngujóga er frábær undirbúningur fyrir fæðingu.
Með djúpri slökun getur verðandi móðir sleppt taki á hugsunum, áhyggjum og spennu. Við endum suma tíma á langri jóga nidra slökun. Jóga nidra eða jógískur svefn er leidd djúphugleiðsla sem leiðir þig handan hugans, mitt á milli svefns og vöku. Með slökuninni losnar um spennu og stíflur í líkamanum þannig að orkan nær að flæða betur og líkaminn nær að heila sig sjálfur.
“Ég byrjaði í meðgöngujóga hjá Helenu á 32.viku meðgöngunnar. Ég vildi óska að ég hefði byrjað fyrr. Tímarnir voru dásamlegir, góðir fyrir líkama og sál. Ég sleppti takinu og lærði að fara betur og betur inná við í hverjum tímanum sem leið. Möntrurnar, hugleiðslan, hreyfingin, flæðið og slökunin. Stöðurnar var alltaf hægt að aðlaga eftir því hvað líkaminn þoldi eða þoldi ekki. Það var alltaf hægt að færa sig af gólfinu upp á stól eða jógabolta, allt eins og manni leið best með. Helena var líka svo dugleg að læða inn fróðleik og gefa góð ráð tengdu meðgöngu og fæðingu. Allt þetta hjálpaði mér svo sannarlega í minni fæðingu sem var sú fjórða en samt fyrsta jógafæðingin mín og alveg dásameg fæðing. Ég var svo vel undirbúin andlega og líkamlega. Orkan úr tímunum hennar Helenu var með mér og færði mér styrk. Ég þarf ekki annað en að hlusta á möntrurnar úr tímunum í dag til þessa að komast á góða staðinn sem ég fór á í tímunum. Takk innilega fyrir allt sem þú og tímarnir þínir gáfu mér“
Hildur Grímsdóttir
“Èg var mjög efins með að skrá mig í meðgöngujóga þar sem að mèr fannst ekki gaman í jóga og meiri hreyfing hentaði mèr betur. Èg fór samt sem áður með vinkonu minni og sá aldrei eftir því þar sem að èg lærði margt nýtt hvað varðar líkamann minn sem og mismunandi öndun til þess að hjálpa mèr í gengum fæðinguna. Èg átti drauma fæðingu með engum inngripum þar sem að èg notaðist við öndunaraðferðirnar sem að èg lærði á námskeiðinu og skaust sonur minn í heiminn á ógnarhraða. Ég skrái mig klárlega aftur á námskeið hjá Helenu á næstu meðgöngu 🙂“
Dagný Brynjarsdóttir
“Ég fór í meðgöngujóga hjá Helenu á minni fyrstu meðgöngu og það var afar gagnlegt. Hún hefur frábæra nærveru, er reynslumikil og fróð og viljug til að deila upplýsingum. Það hjálpaði mér mikið við að fara róleg inn í fæðinguna með fulla trú á að gæti þetta alveg.“
Laufey Ósk
“Mig langar að skrifa hér um moment á síðustu meðgöngu sem ég áttaði mig á eftir á hvað var magnað. Ég var komin ansi langt á leið og var farin að upplifa allskonar einkenni og erfiðleika við daglegt amstur vegna þess hvað ég var orðin fyrirferðamikil og þreytt í líkamanum. Ég get ekki talið upp nákvæmlega hvað var að hrjá mig þetta kvöld en ég var alveg ómöguleg í líkamanum, var með grindarverki, pirring og verki í fótum, orðin bjúguð og fann enga góða stellingu að vera í. Maðurin minn var að reyna að nudda fæturna mína og gera eitthvað fyrir mig en ég var farin að gráta og orðin mjög pirruð því ég fann enga leið til að líða betur. Ég tók þá símann minn og yoga boltan inn í herbergi og lokaði mig inni. Ég kveikti á uppáhalds möntrunum í símanum, fór á hnén á gólfið (líklega á kodda) og hallaði mér fram á boltann, ruggaði mér rólega og andaði haföndun. Ég náði að kyrra hugan á nokkrum sekúndum. Ég veit ekki hvað leið langur tími þar til ég fór aftur fram og leið miklu betur, kannski hálftími. Eftir að ég jafnaði mig hugsaði ég: “vá, þetta var alveg ný og áhugaverð upplifun!” Ég hef engin orð yfir hvað ég er þakklát að búa yfir þessari tengingu við líkamann minn og þessum eiginleika að geta tekist á við hvað sem þetta dásamlega ferli býður mér uppá með opin og jákvæðan hug. Ég þakka því að lífið leiddi mig í meðgönguyoga.“
Dagný Lilja Birgisdóttir
Skráðu þig á póstlistann